Björgvin segir af sér formennsku

Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að segja af sér formennsku í þingflokknum. Hann telur ekki ástæðu til að segja af sér þingmennsku.

Björgvin segist ætla að hvetja eftir því að landsdómur verði kallaður saman til að rannsaka þær ávirðingar sem komi fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann segist öruggur með sína málsvörn, hann hafi skýrt frá sinni afstöðu.

Í skýrslunni kemur fram að Björgvin hafi ekki verið látinn vita af því sem fram fór í aðdraganda bankahrunsins. Björgvin segist hafa ákveðið að þegar niðurstaða skýrslunnar hafi verið að hann hefði sýnt af sér vanrækslu um ákveðin atriði hafi hann ákveðið að stíga til hliðar sem formaður þingflokks og gefa þingmannanefndinni fullt svigrúm til að skoða það mál.

Björgvin minnti á að hann hefði sagt af sér embætti viðskiptaráðherra fyrir rúmu ári út af þessum málum og þannig axlað ábyrgð. Hann hafi síðan boðið sig fram í prófkjöri í Suðurkjördæmi til að skapa eðlilegt svigrúm fyrir sjálfan sig, flokkinn og þingið. Hann vonast til að úrvinnsla málanna verði hröð og að Landsdómur muni að lokum úrskurða um þessi mál, þó það sé þingmannanefndarinnar að úrskurða um það.

Þetta kemur fram á ruv.is