Björgvin ráðinn ritstjóri á Menningarpressunni

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og varaþingmaður Samfylkingarinnar var í dag ráðinn ritsjóri Menningarpressunnar, sem er hluti af útgáfu Vefpressunnar sem m.a. heldur úti miðlunum Eyjan og Pressan.

Björgvin hefur yfirumsjón með umfjöllun um menningu og listir á Pressunni, en ætlunin er að stórauka menningarumfjöllun á næstunni.

Björgvin er gamalreyndur blaðamaður og snýr því á gamalkunnar slóðir en hann segist hlakka til að takast á við ný verkefni. „Framundan er mikil vertíð í margvíslegri útgáfu og því verður örugglega nóg að gera,“ sagði Björgvin í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á listum og menningu hverskonar og hlakka því sérstaklega til að geta helgað mig umfjöllun um menninguna í allri sinni breidd. Ég fjallaði mikið um bókmenntir og tónlist í blaðamennskunni fyrr á starfsferlinum. Það er eitt af stóru áhugamálunum auk stjórnmálanna,“ segir Björgvin.

Hann segist þó ekki vera að draga sig út úr stjórnmálunum með þessu. „Nei, alls ekki. Ég hef jafn mikinn áhuga á þeim núna og þegar ég sautján ára fann mér stað í jafnaðarstefnunni. Fyrir henni hef ég brennandi áhuga nú sem fyrr. Sjáum síðar hvaða tækifæri opnast á þeim vettvangi,“ segir Björgvin

Áður en Björgvin settist á þing árið 2003 var hann meðal annars blaðamaður á Vikublaðinu 1996-1997, ritstjóri Stúdentablaðsins 1997-1998 og framkvæmdastjóri Reykvískrar útgáfu 1999.

Fyrri greinFSu náði ekki að nýta byrinn
Næsta greinBasti skellti í lás