Björgvin Karl er Sunnlendingur ársins 2015

Lesendur sunnlenska.is kusu CrossFit- og lyftingamanninn Björgvin Karl Guðmundsson frá Stokkseyri Sunnlending ársins 2015.

Kosningin stóð yfir í rúma viku á sunnlenska.is og var kjörinu lýst í áramótaþætti Suðurland FM í dag.

Björgvin Karl náði sló í gegn á Heimsleikunum í CrossFit í Los Angeles í Bandaríkjunum í júlí þar sem hann varð í 3. sæti og er því þriðji hraustasti maður heims. Hann keppti einnig fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum og krækti þar í gullverðlaun í ólympískum lyftingum í sínum flokki, og í vetur varði hann svo Íslandsmeistaratitil sinn í CrossFit.

„Það er ekkert annað, þetta er mikill heiður og ég er mjög glaður yfir þessu,“ sagði Björgvin Karl þegar honum voru tilkynnt úrslitin.

Árið var viðburðaríkt hjá Björgvini en hann segir að Heimsleikarnir hafi klárlega verið hápunktur ársins hjá sér.

„Árangurinn á mótinu fór mjög langt fram úr mínum væntingum. Ég var ekki að búast við þessu. Ég endaði í 26. sæti 2014 og markmiðið var að bæta það. Ég stefndi á topp 15 þannig að þú getur ímyndað þér hvað ég var sáttur við að lenda í topp þremur. Mótið byrjaði vel hjá mér og ég var í 6. sæti eftir fyrstu greinina. Þá hugsaði ég að ég ætlaði að reyna að hanga í efri hlutanum eins lengi og ég gæti, en svo bætti ég bara í ef eitthvað var,“ segir Björgvin.

Hann fór í gríðarlega strangar æfingabúðir í fimm vikur fyrir mótið og segir að það hafi verið lykillinn að þessum góða árangri. „Það skilaði sér klárlega mjög vel þegar leið á mótið. Í lokin snýst þetta mikið um það hverjir eru heilir í líkamanum og geta tekið á því á lokakaflanum. Það eru margir sprungnir á öðrum og þriðja degi.“

Björgvin segir að hann hafi náð því besta sem hann mögulega gat á þessu ári og það verði erfitt að toppa það. „Það er hins vegar auðvitað markmiðið mitt að gera betur á næsta ári. ég yrði mjög ósáttur ef ég næði ekki 1. eða 2. sæti á heimsleikunum 2016.“

Stokkseyringurinn ungi er í fremstu röð í CrossFit heiminum þrátt fyrir að hafa aðeins æft greinina í þrjú ár. Hann er rétt að byrja enda er hann yngsti verðlaunahafi á Heimsleikunum hingað til.

„Ég ákvað það árið 2012 að sleppa því að fara í háskóla og reyna fyrir mér í þessu. Þegar ég tók þá ákvörðun þá var ég ekki orðinn neitt nafn í þessu og var í rauninni að taka ákveðinn séns þannig séð að fara að æfa á fullu og sjá svo bara til,“ segir Björgvin. „Eftir fyrstu æfinguna var ekki aftur snúið, ég fann mig strax mjög vel í þessu.“

Björgvin sýndi fljótt framúrskarandi getu í CrossFit og krækti í fyrsta Íslandsmeistaratitilinn síðla árs 2013, rétt rúmu ári eftir að hann hóf æfingar, og hefur haldið titlinum síðan.

Metþátttaka var í kosningunni um Sunnlending ársins 2015 en að þessu sinni fengu 42 Sunnlendingar atkvæði og hafa aldrei verið fleiri tilnefndir. Í 2. sæti varð Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, sem stýrði sínu liðitil sigurs á heimsmeistaramótinu í núna í desember. Í 3. sæti urðu björgunarsveitirnar á Suðurlandi en þær fengu fjölmörg atkvæði hver um sig og einnig allar saman.

Nánar verður rætt við Björgvin Karl í 1. tölublaði Sunnlenska fréttablaðsins árið 2016

Fyrri greinRómantíska stemmningin á Stokkseyri könnuð
Næsta greinGleðilegt nýtt ár!