Björgvin hefur endurgreitt Ásahreppi að fullu

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fundi sínum síðastliðinn miðvikudag að fela Agli Sigurðssyni, oddvita, í samráði við lögmann sveitarfélagsins að gera tilraun til þess að ljúka starfslokamáli Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi sveitarstjóra, með samkomulagi við Björgvin.

Eftir fund sveitarstjórnar á miðvikudag gerðu Björgvin og Ásahreppur með sér samkomulag um fjárhagslegt uppgjör vegna málsins, sem öðrum þræði fól í sér nánari útfærslu á fyrri samningi um starfslok Björgvins. Þá viðurkenndi Björgvin að hafa brotið gegn starfsskyldum sínum með því að hafa án fenginnar heimildar ráðstafað fjármunum úr sveitarsjóði Ásahrepps.

Laun Björgvins vegna vinnu í janúar 2015 og uppsafnað orlof hans gengu til greiðslu krafna Ásahrepps og þá féll Björgvin frá rétti til launa í uppsagnarfresti. Björgvin hefur þegar endurgreitt hreppnum að fullu allar kröfur.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Ásahrepps í dag segir að samkomulagið feli í sér endanlegar málalyktir vegna starfslokanna af hálfu beggja aðila og mun hvorugur hafa uppi frekari kröfur á hendur hinum né frekari aðgerðir vegna málsins.

„Bæði hreppsnefnd Ásahrepps og Björgvin G. Sigurðsson hafa lagt áherslu á að leysa málið með hagsmuni hreppsins í huga, sem endurspeglast í því samkomulagi sem gert hefur verið. Aðilar eru sáttir við að hafa náð fullnaðarlúkningu í málinu og óska hvor öðrum góðs gengis í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingunni.

Fyrri greinTómas með tvö í sigri Árborgar
Næsta greinGovens flottur í fyrsta leik