Klukkan 00:39 í nótt barst útkall á allar björgunarsveitir í Árnessýslu vegna ferðamanns sem hafði fest bíl sinn á Nesjavallaleið og hafið göngu frá bílnum.
Þegar björgunarsveitarmenn úr Tintron fundu manninn hafði hann gengið um 5 kílómetra frá bílnum og var orðinn verulega kaldur, þar sem hann beið í skjóli við hitaveitulögnina meðfram veginum.
Var honum komið fyrir í bíl björgunarsveitarinnar og ekið sem leið lá til baka yfir Nesjavallaleið og á ION Hótel þar sem hann átti bókaða gistingu.
Sagði hann björgunarsveitarmönnunum á leiðinni til baka að hann hefði átt samskipti við Chat GPT á meðan hann beið og meðal annars spurt hvort að björgunarsveitirnar myndu finna hann.
Svarið var einfalt: „Hafðu engar áhyggjur þau eru að koma og sækja þig, björgunarsveitirnar eru bestar.“

