Björgunarsveitir óku heilbrigðisstarfsfólki til vinnu

Hjálparsveit skáta í Hveragerði við lokunarpóst hjá hringtorginu við Hveragerði. Ljósmynd/Landsbjörg

Snarpur hvellur gekk yfir Suðurland í morgun með tilheyrandi hvassviðri og skafrenningi. Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna ófærðar en skafrenningurinn olli því að færð spilltist hratt víða.

Flestar aðalleiðir voru lokaðar í morgun en búið er að opna Eyrarbakkaveg, Þorlákshafnarveg og Suðurlandsveg milli Selfoss og Hellu. Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Suðurstrandarvegur eru enn lokuð en staðan verður tekin í hádeginu.

Björgunarsveitafólk kom starfsfólki heilbrigðisstofnana til aðstoðar við að komast til vinnu og fylgdi sjúkrabíl í útkall vegna veikinda. Hvellinum fylgdi töluvert af aðstoðarbeiðnum vegna ófærðar á stuttum tíma og kom björgunarsveitafólk rúmlega 20 manns til aðstoðar. Í einhverjum tilfellum var hægt að losa fasta bíla en öðrum farþegum var komið í skjól og bílar skildir eftir.

Veðrið virðist vera að ganga niður en þó er slæm færð víða og fólk beðið um að fara varlega og bíða með ónauðsynleg ferðalög.

Félagar úr Tintron loka Lyngdalsheiði. Ljósmynd/Landsbjörg
Fyrri greinAllar aðalleiðir lokaðar
Næsta greinTæknilega flókið að ná flakinu upp