Björgunarsveitir kallaðar út – Heiðin og Þrengslin lokuð

Það er ekkert skyggni á Eyrarbakkavegi, þar sem þessi mynd er tekin. Ljósmynd: Björgunarsveitin Björg/Ægir Guðjónsson

Björgunarsveitir frá Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Grindavík voru kallaðar út á ellefta tímanum í kvöld vegna fastra bíla á Suðurstrandarvegi.

Vegurinn er lokaður vegna fastra bíla í nágrenni Þorlákshafnar. Þá var Þrengslum og Eyrarbakkavegi lokað laust eftir miðnætti vegna snjóa og Hellisheiðinni sömuleiðis, um klukkutíma síðar.

Að sögn Ægis Guðjónssonar, hjá Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka, hafa björgunarsveitir þurft að aðstoða um tíu bíla sem lentu í vandræðum á Suðurstrandarvegi. Mikið hefur snjóað á svæðinu, það skefur yfir veginn og ekkert skyggni.

UPPFÆRT KL. 2:20: Björgunarsveitirnar eru ennþá úti og hafa meðal annars þurft að aðstoða fasta bíla á Eyrarbakkavegi.

Björgunarsveitarbílar í Þorlákshöfn í kvöld. Ljósmynd: Björgunarsveitin Björg/Ægir Guðjónsson
Fyrri greinSkjálfti á Hellisheiði fannst vel í Ölfusinu
Næsta greinÞurfti aðstoð eftir nótt í snjóhúsi