Björgunarsveitir kallaðar að Víkurfjöru og Ingólfsfjalli

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til að sinna tveimur útköllum.

Annarsvegar féll kona í Básnum í Víkurfjöru. Aðstæður eru mjög erfiðar en beita þarf sérhæfðri fjallabjörgun og hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið kölluð út til aðstoðar.

Hinsvegar er um að ræða göngukonu sem er í sjálfheldu í sunnanverðu Ingólfsfjalli. Er þar um vinsæla gönguleið að ræða sem viðkomandi virðist hafa farið út af.

UPPFÆRT KL. 14:00: Konan sem féll í Básnum í Víkurfjöru er komin um borð í þyrlu. Björgunarmenn óðu í sjó meðfram klettunum og klifruðu svo upp að konunni og gátu tekið á móti siglínu þyrlunnar.

UPPFÆRT KL. 15:02: Konan sem var í sjálfheldu í Ingólfsfjalli er komin í hendur björgunarmanna og er verið að koma henni niður. Reikna má með að þeirri aðgerð ljúki á næstu mínútum.

UPPFÆRT Kl. 16:16: Göngukonan sem var í sjálfheldu í Ingólfsfjalli er nú komin niður á jafnsléttu og aðgerðum þar lokið.