Björgunarsveitir í óveðursútköllum

Lögregla og björgunarsveitarmenn sinntu óveðursútkalli á byggingarsvæði austast á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út núna síðdegis til að sinna óveðurstengdum verkefnum.

Á Stokkseyri er þak að losna á húsi og í uppsveitunum þurfti að bjarga hestum sem voru í vandtæðum vegna vatnavaxta. Þá hafa byggingarefni fokið á byggingarsvæðum á Selfossi.

Eins og komið hefur fram í pistlum frá Veðurstofunni í dag er veðurspá fyrir næsta sólarhringinn ekki góð á Suður- og Vesturlandi. Veðurstofan gaf út gular veðurviðvaranir og töluverður vindur hefur verið seinnipartinn í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu eru flest útköllin á höfuðborgarsvæðinu og síðasta klukkutíman hefur beiðnum um aðstoð fjölgað nokkuð. Stór hluti verkefnanna þar snýr að trampólínum og garðhúsgögnum, því er mikilvægt að fólk hugi að lausamunum í sínu nærumhverfi og komi þeim í skjól.
Fyrri greinTvö lög til viðbótar frá Moskvít
Næsta greinMögnuð endurkoma Selfyssinga