Björgunarsveitir fundu áttavillta göngukonu

Björgunarsveitarfólk á ferðinni í kvöld. Ljósmynd/Tintron

Klukkan 17:51 í dag barst björgunarsveitum í uppsveitum Árnessýslu útkall vegna áttavilltrar göngukonu á Kerlingarfjallasvæðinu.

Konan fannst á uppgefnum punkti rétt fyrir klukkan 21 í kvöld og var í kjölfarið fylgt í bíl Björgunarsveitarinnar Ingunnar á Laugarvatni, sem flutti hana í sinn einkabíl á svæðinu.

Í frétt frá Björgunarsveitinni Tintron í Grímsnesi segir að útkallið hafi gengið vel fyrir sig og gerði konan rétt með því að halda kyrru fyrir frá því að hún óskaði eftir aðstoð.

Nú eru viðbragðsaðilar á heimleið og má gera ráð fyrir heimkomu að ganga 1:00 í nótt.

Fyrri greinSelfoss fékk skell í opnunarleiknum
Næsta greinPeppuð fyrir ráðstefnu ungs fólks