Björgunarsveitir á öskusvæðið

Björgunarsveitarmenn frá Hellu, Hvolsvelli og Vík voru fyrir stundu á leið á svæðið þar sem mest öskufall hefur verið frá eldgosinu í Grímsvötnum. Fólki sem þar er statt er eindregið ráðlagt að halda sig innandyra.

Hlutverk björgunarsveitarmannanna verður einkum að koma rykgrímum og gleraugum til fólks á gossvæðinu. Þá ætla þeir að hjálpa bændum sem þurfa að koma búsmalanum á hús.

Mikill viðbúnaður er hjá Almannavörnum vegna gossins og færist hann frekar í aukana en hitt. Aðgerðum er stýrt frá samhæfingarstöðinni í Reykjavík og frá Hvolsvelli og Höfn í Hornafirði.

Því er eindregið beint til fólks á svæðinu þar sem öskufall er mest að halda sig innandyra, hafa glugga lokaða og kynda hús sín til að varna því að askan smjúgi inn.

RÚV greindi frá.

Fyrri greinGrjótskriða úr Lómagnúpi
Næsta greinFjöldahjálparstöð opnuð á Klaustri