Björgunarsveitir á öskusvæðið

Björgunarsveitarmenn frá Hellu, Hvolsvelli og Vík voru fyrir stundu á leið á svæðið þar sem mest öskufall hefur verið frá eldgosinu í Grímsvötnum. Fólki sem þar er statt er eindregið ráðlagt að halda sig innandyra.

Hlutverk björgunarsveitarmannanna verður einkum að koma rykgrímum og gleraugum til fólks á gossvæðinu. Þá ætla þeir að hjálpa bændum sem þurfa að koma búsmalanum á hús.

Mikill viðbúnaður er hjá Almannavörnum vegna gossins og færist hann frekar í aukana en hitt. Aðgerðum er stýrt frá samhæfingarstöðinni í Reykjavík og frá Hvolsvelli og Höfn í Hornafirði.

Því er eindregið beint til fólks á svæðinu þar sem öskufall er mest að halda sig innandyra, hafa glugga lokaða og kynda hús sín til að varna því að askan smjúgi inn.

RÚV greindi frá.