Björgunarsveitir aðstoða ökumenn

Björgunarsveitir í Hveragerði og á Selfossi hafa í kvöld aðstoðað ökumenn í vandræðum milli Hveragerðis og Selfoss.

Hálka og vindur hafa orðið til þess að bílar hafa runnið útaf Suðurlandsvegi, t.d. við Ingólfshvol. Þá eru björgunarfélagsmenn á Selfossi að aðstoða ökumenn í vandræðum undir Ingólfsfjalli en þar eru stífir vindstrengir og hálka. Björgunarsveitir voru ekki kallaðar til aðstoðar á Hellisheiði en sveitin í Hveragerði sá um að loka Suðurlandsvegi við hringtorgið í Hveragerði.

Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi var kölluð út að sundlauginni á Borg til að binda niður hlífðardúk yfir lauginni sem hafði rifnað og losnað í rokinu.

Síðdegis sinntu hjálparsveitarmenn í Hveragerði lausum þakkanti á húsi þar í bæ og um kl. 21 í kvöld var Björgunarfélag Árborgar kallað að verslun Vínbúðarinnar við Vallholt þar sem þakkantur var að losna.