Björgunarsveitin Kári hlaut Verndarvæng Icelandair

Guðmundur Ögmundsson, fyrrverandi formaður Kára, tók við viðurkenningunni frá Ara Fossdal, stöðvarstjóra Icelandair á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Á Landsþingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem nú fer fram á Akureyri hlaut Björgunarsveitin Kára í Öræfum Verndarvænginn, viðurkenningu sem Icelandair veitir björgunarsveit fyrir eftirtektarvert starf. Ari Fossdal stöðvarstjóri Icelandair á Akureyri afhenti sveitinni viðurkenninguna fyrr í dag.

Björgunarsveitin Kári er fámenn sveit sem leggur afar mikilvægt lóð á vogarskálarnar við að stuðla að öryggi ferðamanna í Austur-Skaftafellssýslu. Sveitin sinnir stóru svæði og eru um 100 kílómetrar í næstu sjúkrabíla og aðrar bjargir. Mikið álag hefur verið á herðum sveitarinnar sem sinnir fyrsta viðbragði ef eitthvað kemur upp á.

„Slysavarnarfélagið Landsbjörg gegnir lykilhlutverki í almannavarnarkerfi okkar Íslendinga. Við höfum um árabil átt í mjög góðu samstarfi við félagið og sem það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til Íslands lítum við á það sem skyldu okkar að leggja okkar af mörkum til að stuðla að auknu öryggi ferðamanna. Björgunarsveitin Kári er fámenn en mjög öflug og sinnir stóru svæði sem fjöldi ferðamanna heimsækir ár hvert. Það er því mjög ánægjulegt að geta stutt við þeirra öfluga starf,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Icelandair hefur átt í samstarfi við Slysavarnarfélagið Landsbjörg frá árinu 2014 og verið einn af aðalstyrktaraðilum félagsins. Auk þess eiga félögin í víðtæku samstarfi er varðar forvarnir, upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna, öryggisþjálfun og gerð viðbragðsáætlana.

Að sögn Otta Rafns Sigmarssonar, formanns Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er Björgunarsveitin Kári afar mikilvæg í því neti bjarga sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur byggt upp um land allt. „Því mikilvægasta björgunarsveitin er jú alltaf sú sem er næst, þegar óhapp verður,“ segir Otti.

Fyrri greinHamar nýtti liðsmuninn vel
Næsta greinDuran-hárgreiðslan var málið