Björgunarsveit aðstoðaði við sjúkraflutninga

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ökumaður torfæruhjóls slasaðist á fæti þegar hann missti stjórn á hjóli sínu á Nesjavöllum í gær.

Hann var fluttur að sjúkrabíl með aðstoð björgunarsveitarmanna og ekið á sjúkrahús en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er hann ekki talinn alvarlega slasaður.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku varð umferðaslys á Suðurlandsvegi síðastliðinn föstudag. Þar slasaðist ökumaður fólksbíls á höfði en meiðsli hans voru ekki talin alvarleg.

Tvö önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu þar sem einungis var um eignatjón að ræða og í því þriðja var ekið á lamb skammt frá Hörgslandskoti á Síðu. Ökumaður bifreiðarinnar hafði horft á eftir lambinu hlaupa í burtu en síðar kom í ljós að aflífa þurfti lambið vegna þeirra áverka sem það hlaut.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.