Björgunarskipið Ingibjörg kom til Hafnar í Hornafirði við hátíðlega athöfn síðastliðinn laugardag. Fjöldi Hornfirðinga lagði leið sína niður á bryggju til að taka á móti skipinu, sem sigldi frá Reykjavík með viðkomu í Vestmannaeyjum.
Ingibjörg leysir þar með af hólmi eldra björgunarskip með sama nafni. Skipið er það fimmta í röðinni í endurnýjun björgunarskipa Landsbjargar.
Með tilkomu Ingibjargar verður viðbragðstími skemmri og öryggi sjófarenda aukið til muna enda eru skipin búin nýjustu siglingartækjum til leitar og björgunarstarfa.
Skipin eru smíðuð af finnska skipasmíðafyrirtækinu KewaTec, en markmiðið er að endurnýja allan flotann, sem telur alls þrettán skip. Nú þegar eru fimm ný björgunarskip komin til starfa við Íslandsstrendur, og má búast við að það sjötta verði afhent Ísfirðingum í vetur.

