Björgunarmiðstöðin tilbúin

Björgunarmiðstöð Árborgar er loksins tilbúin og undirbúa viðbragðsaðilar nú flutning inn í húsið. Í tilefni af þessu verður húsið til sýnis í dag milli kl. 16 og 18.

Grillaðar verða pylsur í boði sveitarfélagsins og viðbragðsaðilar munu sýna tæki sín og tól. Meðal annars verður gestum boðið í stutta ferð í nýjum snjóbíl Björgunarfélags Árborgar á árbakkanum norðan björgunarmiðstöðvarinnar.

Verktakar hafa lokið vinnu í björgunarmiðstöðinni og leigjendur í húsinu munu koma sér fyrir þar á næstu fjórum vikum. Húsið, sem er 1.450 fermetrar og að hluta til á þremur hæðum, verður komið í fulla notkun þann 1. maí nk.

Í eystri endanum verða Brunavarnir Árnessýslu og sjúkraflutningar HSu með aðstöðu en Björgunarfélag Árborgar í vestari endanum. Húsnæði þessara aðila er aðskilið með skrifstofu- og þjónustubyggingu.

Fyrsta skóflustungan að Björgunarmiðstöðinni var tekin þann 24. apríl árið 2006, fyrir rétt tæpum fimm árum síðan. Á ýmsu hefur gengið í byggingarferlinu en Björgunarmiðstöðin ehf missti húsið í hendur Íslandsbanka vegna gjaldþrots. Bankinn seldi svo húsið í lok síðasta árs til sveitarfélagsins Árborgar.

Fyrri greinNý hárgreiðslustofa á Selfossi
Næsta greinTvær sunnlenskar í úrslitum