Björgunarmiðstöðin komin í gagnið

Sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eru fluttir inn í glæsilega aðstöðu í Björgunarmiðstöð Selfoss.

Ármann Höskuldsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá HSu, sagði í samtali við sunnlenska.is að mikil ánægja væri með nýju aðstöðuna hjá sjúkraflutningamönnunum sem hafa nú allt til alls á sama stað. Áður voru sjúkraflutningamennirnir með aðstöðu á þremur stöðum í austurbæ Selfoss.

Björgunarfélag Árborgar og Brunavarnir Árnessýslu munu einnig nota húsið en gólfflöturinn sem ætlaður er undir sjúkraflutningamennina er 360 fm, þar af er u.þ.b. helmingurinn stæði fyrir sjúkrabílana.

Á efri hæð hússins er rúmgóð setustofa og svefnherbergi fyrir sjúkraflutningamennina, stjórnstöð og bílageymsla á jarðhæð en í kjallara eru búningsherbergi og geymslur auk þess sem eftir á að standsetja saunabað og líkamsræktarsal.

Hjá HSu starfa um 40 sjúkraflutningamenn og konur og þar af eru 17 á vöktum á Selfossi, fjórir í einu. Á síðasta ári voru um 1650 útköll sjúkraflutningamanna á HSu.