Rétt fyrir hádegi barst hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Landmannalaugum útkall vegna ferðafólks sem hafði fest bíl sinn á leið yfir Jökuldalakvísl, austan við Landmannalaugar.
Félagar úr Björgunarsveitinni Ægi í Garði, sem eru að ljúka hálendisvakt í dag, brugðust skjótt við og héldu á staðinn. Bíllinn sat fastur nánast nákvæmlega á hreppamörkum Rangárþings ytra og Skaftárhrepps.
Þegar að var komið var fólkið komið út úr bílnum og hélt til á þaki hans. Björgunarmaður með straumvatnsbjörgunarbúnað óð til þeirra og aðstoðaði fólkið í land. Þau voru gegnblaut og talsvert köld og mikið vatn hafði flætt inn í bílinn. Fólkið var vafið í ullarteppi þegar þau komu í land og færð í bíl björgunarsveitarinnar. Bíll fólksins var síðan losaður úr ánni og tókst að koma honum aftur í gang.
Fólkið, og bíllinn, var ferjað í aðstöðu hálendisvaktarinnar í Landmannalaugum þar sem ferðalanganna beið heitt kakó og vel kynt hús.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og suðurhluta miðhálendisins til klukkan 6 í fyrramálið og hefur Veðurstofan varað við því að vatnshæð í ám og lækjum hækki umtalsvert og geta vöð orðið ófær, til dæmis að Fjallabaki. Ferðafólk er hvatt til að sýna sérstaka aðgát.
Björgunarsveitunum barst annað útkall nú eftir hádegi vegna slasaðs göngumanns í Kerlingarfjöllum. Björgunarsveitir úr uppsveitunum eru á leið á vettvang ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.