Björguðu hrossi upp úr haughúsi

Hesturinn kominn upp úr haughúsinu. Ljósmynd/Viðar Arason

Hjálparsveitin Tintron og Björgunarfélag Árborgar fengu óvenjulegt verkefni í morgun þegar bjarga þurfti hrossi sem hafði fallið niður um op á gólfi, niður í haughús, á bæ í Grímsnesi.

Fallið var um þrír metrar en um metersþykkt lag af skít var í haughúsinu þannig að lendingin varð til allrar lukku frekar mjúk.

„Tintron mættu fyrstir á staðinn og voru búnir að fara niður og athuga stöðuna á hestinum þegar við mættum. Það þurfti að koma pöllum undir hestinn og stilla hann af undir opinu sem hann hafði fallið niður um og síðan notuðum við flutningsnet og litla beltagröfu til þess að hífa hestinn upp aftur,“ sagði Ágúst Ingi Kjartansson, hjá Björgunarfélagi Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta heppnaðist ótrúlega vel og tók ekki langan tíma þegar við vorum komnir með réttu tækin. Þessi grafa bjargaði miklu og ef hún hefði ekki verið á staðnum þá hefði þetta verið meiriháttar mál,“ sagði Ágúst ennfremur og bætti við að hrossið hafi verið í góðu ásigkomulagi eftir volkið.

„Já, hann virtist bara vera í góðu standi eftir þetta. Hann var greinilega dálítið skelkaður þegar hann kom upp en annars virðist honum ekki hafa orðið meint af þessu.“

Fyrri grein„Fáum fólkið með okkur“
Næsta grein„Allt er þá þrennt er“