Björguðu frosinni álft af Ölfusá

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir út um miðjan dag í dag til þess að bjarga álft sem sat frosin föst í ís á Ölfusá, fyrir ofan Hrefnutanga.

„Þetta er við fjölfarna leið upp í Hellisskóg og það var vegfarandi sem tók eftir álftinni þar sem hún var föst í ísnum. Dagvaktin á Selfossi var kölluð til og við höfðum líka samband við Björgunarfélag Árborgar, sem er með straumvatnsbjörgunarhóp,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Það kom þó ekki til kasta björgunarsveitarinnar því ísinn var traustur og slökkviliðsmennirnir voru fljótir að henda stiga út á hann. Bundnir í línu og klæddir björgunarvesti nálguðust þeir fuglinn.

„Það kom auðvitað styggð að álftinni við þetta og rétt áður en við komum að henni þá náði hún að slíta sig lausa. Maki álftarinnar fylgdist með aðgerðunum úr seilingarfjarlægð og syntu þær síðan saman út í sólarlagið, þannig að þetta fallega ævintýri hafði farsælan endi,“ bætti Pétur við.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinSamfylkingin stærst í Suðurkjördæmi
Næsta greinUngmennahús í Hveragerði