Björguðu álftapari í sjávarháska

Guðni og Guðmundur komu álftunum til bjargar. Ljósmynd/Vegagerðin

Starfsmenn þjónustustöðvar Vegagerðarinnar í Vík komu örmagna álftapari til bjargar á dögunum. Álftirnar fengu bað og húsaskjól þar til þær hresstust og flugu á vit nýrra ævintýra.

Greint er frá reynslusögu álftaparsins á heimasíðu Vegagerðarinnar.

„Það var búið að vera vont veður hjá okkur í nokkra daga og mikill sjógangur. Ég sendi því tvo menn, þá Guðna Tómasson og Guðmund Kristján Ragnarsson, úr á varnargarð sem er hér fyrir framan húsnæði okkar Vegagerðarinnar til að kanna aðstæður,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Vík. Sjálfur er Ágúst fótbrotinn og því fylgdist hann með starfsmönnum sínum meðan þeir klifruðu upp á varnargarðinn. „Síðan sé ég að þeir hoppa fram af garðinum og fer að velta fyrir mér hverju það sæti.“

Þeir félagar höfðu þá komið auga á álftapar í flæðarmálinu. „Þær veltust þar um algerlega örmagna og önnur lá á bakinu. Strákarnir ákváðu að vaða út í og koma þeim í húsaskjól. Það var heilmikill öldugangur og þeir voru lappablautir þegar þeir komu heim með álftirnar í fanginu,“ lýsir Ágúst en fuglarnir voru allir í sandi enda búið að vera mikið sandrok á svæðinu. Til að vera viss um að bregðast rétt við ákvað Ágúst að hringja í Dýralæknaþjónustu Suðurlands til að fá leiðbeiningar. „Þar var okkur sagt að þrífa fuglana, gefa þeim að drekka og borða og leyfa þeim svo að þorna,“ segir Ágúst.

„Þær voru mjög spakar enda alveg orkulausar. Við skoluðum af þeim sandinn, gáfum þeim brauð og vatn, klöppuðum þeim á kollinn og leyfðum þeim svo að valsa frjálsum í vinnusalnum.“ Parið var fljótt að jafna sig og fór þá að hafa meiri vara á sér. „Þær voru mjög rólegar meðan enginn var í kringum þær, fóru í göngutúr um salinn og létu vel af sér. En ef við voguðum okkur nær en tvo metra þá hvæstu þær á okkur.“

Eftir tvo þrjá tíma voru fuglarnir orðnir hressir. Þá hafði þessi heimsókn spurst út til barna starfsmanna sem mættu á staðinn til að kveðja þessa skemmtilegu gesti.

„Við opnuðum stóru hurðina, gengum rólega eftir þeim út og svo hófu þær sig til flugs.“

Álftirnar halda hressar á vit nýrra ævintýra. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri greinTvöfaldur sigur Byko í parafimi
Næsta greinHalldór gefur kost á sér hjá Framsókn