Björguðu 14 ára pilti á kænu af Laugarvatni

Kænan dregin að landi kl. 19:09 í kvöld. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni var kölluð út kl. 18:25 í kvöld vegna 14 ára pilts sem var á reki, áralaus, á lítilli kænu á Laugarvatni.

Pilturinn hafði verið að leika sér í flæðarmálinu ásamt félögum sínum, þar sem bátskænan lá hálf upp á landi. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að þegar pilturinn hafi stokkið upp í bátinn hafði hann komist á skrið og runnið út á vatnið þar sem sterkur vindur greip bátinn strax og rak hann hratt frá landi.

Fimm mínútum eftir að útkallið barst var björgunarbátur frá Ingunni kominn út á vatnið og var kænan með piltinum þá komin alllangt frá landi. Rigningarvatn var í kænunni og var pilturinn orðinn nokkuð kaldur þegar björgunarsveitarbáturinn kom að honum.

Drengurinn var tekin um borð í björgunarbátinn, og kænan tekin í tog og allir voru komnir heilir á húfi á land um klukkan 19:15.

Björgunarsveitin við Laugarvatn í kvöld. Ljósmynd/Ingunn
Fyrri greinKlippa hár og selja föt til styrktar Sigurhæðum
Næsta greinOddaleikur á mánudagskvöld