Björguðu bíl úr Krossá

Við Krossá. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Skálaverðir í Langadal björguðu í dag jepplingi sem hafði lent á grjóti og fest sig í Krossá á leið inn í Þórsmörk.

„Það var engin hætta á ferðum og bíllinn var í lagi eftir volkið. Ökumaðurinn var óheppinn, hann lenti á grjóti í ánni og festi sig á full litlum bíl,“ sagði Andri Johnsen, skálavörður í Langadal, í samtali við sunnlenska.is.

„Vegurinn hérna inneftir er alveg þokkalegur en það er að byrja vöxtur í ánum og þær eru ekki góðar fyrir jepplinga. Það er betra að fara með rútunni heldur en að taka áhættu í ánum,“ sagði Andri.

Að sögn Andra hefur verið ágæt umferð inn í Þórsmörk að undanförnu, töluvert af göngufólki, íslensku og erlendu sem gistir í skálum eða á tjaldsvæðum.

Ferðafélag Íslands rekur skálann í Langadal, Útivist er með skálann í Básum og Volcano Huts í Húsadal.

Fyrri greinHulda heldur áfram að bæta Íslandsmetið í kúlu
Næsta greinVinningshafar í „Gaman saman“ dregnir út