Björguðu kindum úr sjálfheldu

Félagar úr Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli voru á dögunum fengnir til þess að síga eftir kindum sem voru í svelti í Gilsárgljúfri á Fljótshlíðarafrétti.

Er komið var á staðinn var í fyrstu talið að eina vitið væri að skjóta kindurnar því fyrir neðan þær var um 100 metra hengiflug niður í gljúfrið.

Sigmenn Dagrenningar þeir Sveinbjörn Már og Birgir Svanur vildu þó freista þess að síga niður og reyna að klófesta þær þó syllan væri löng sem þær voru á.

Með þrjósku, þremur línum og talsverðum tryggingum hafðist að bjarga þeim upp rétt fyrir myrkur og komust kindurnar heilar heim að bæ til eiganda síns.

Á Facebooksíðu Dagrenningar segir að aðgerð sem þessi sé ágæt æfing fyrir mannskapinn, en ætti þó að vera stunduð í hófi að áliti lofthræddari manna !