Björg og Snæbjörn fengu landbúnaðarverðlaunin

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra afhenti landbúnaðarverðlaunin 2015 á setningarhátíð búnaðarþings um síðustu helgi. Að þessu sinni hlutu Brúsastaðir í Vatnsdal og Efstidalur II í Bláskógabyggð verðlaunin.

Á Efstadalur II í Laugardal búa Björg Ingvarsdóttir og Snæbjörn Sigurðsson með 40 kýr og á annað hundrað nautgripi og um 40 hross. Búskapurinn í Efstadal II er þannig margvíslegur, hrossarækt, kúabúskapur, fjölbreytt ferðaþjónusta og heimavinnsla matvæla. Slíkur rekstur krefst aukins mannafla og gefur möguleika á mildum kynslóðaskiptum þar sem allir hafa hlutverk og tekjur af búrekstrinum.

Við afhendingu verðlaunanna sagði Sigurður Ingi meðal annars. „Verðlaunin voru í upphafi hugsuð sem viðurkenning til aðila sem á einn eða annan hátt tengjast íslenskum landbúnaði og hafa sýnt með verkum sínum áræðni og dugnað, þannig að þau eru til fyrirmyndar. Í anda þessa hefur síðan verið unnið. Þau má túlka sem þakklætis og virðingarvott frá landbúnaðarráðherra til landbúnaðarins, þeirrar atvinnugreinar sem svo margir byggja afkomu síðan á. Beint eða óbeint.“

Verðlaunagripirnir í ár eru hannaðir og unnir af listakonunni Sigríði Helgu Olgeirsdóttur. Steinleirsskúlptúr á stöpli úr íslensku birki.

Fyrri greinNaumt tap á útivelli
Næsta greinHlátur er allra meina bót