Bjóða Markaðsstofunni frítt húsnæði í Ölfusi

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Sveitarfélagið Ölfus hefur boðist til að leggja Markaðsstofu Suðurlands til húsnæði í Ölfusi, Markaðsstofunni að kostnaðarlausu.

Málefni Markaðsstofunnar voru tekin fyrir á síðasta fundi bæjarráðs Ölfuss þar sem stofan óskaði eftir endurnýjun á samstarfssamningi við sveitarfélagið. Þar kom fram að Markaðsstofan hafi verið rekin með 3,7 milljón króna tapi á síðasta rekstrarári og að húsnæðiskostnaður stofunnar sé um 2 milljónir króna á ári. Markaðsstofan er til húsa í Fjölheimum á Selfossi.

Nú liggur fyrir að ákveðin óvissa er með tekjur vegna COVID ástandsins og þar að auki hafa Vestmannaeyjar ákveðið að hætta samstarfi sem enn dregur úr tekjum. Bæjarráð Ölfuss vill því leita leiða til að auðvelda reksturinn með því að ná rekstrarkostnaði niður um 2 milljónir á ári með því að bjóða gjaldfrjálst húsnæði í Ölfusi,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Tuttugu mínútna akstur yfir í hamingjuna
„Við höfum helst horft til þess að nýta betur hluta þeirra glæsilegu húsakynna sem við höfum yfir að ráða hér í Þorlákshöfn. Við höfum verið að líta til þess að stofna hér fjarvinnuver eða nokkurskonar skrifstofuhótel. Markaðsstofan ásamt þekkingarsetrinu Ölfus Cluster og fleirum gætu orðið kjölfesta í slíku samstarfi,“ segir Elliði ennfremur og bætir við að flutningur Markaðsstofunnar myndi ekki hafa nein hamlandi áhrif á rekstur hennar.

„Það er ekki nema 20 mínútna akstur frá núverandi húsnæði og hingað yfir í hamingjuna. Öll umræða hamlandi áhrif væri í hróplegu ósamræmi við þann tilgang stofunnar að vinna þvert á þetta stóra mikla landssvæði sem Suðurlandið er. Það væri skrítið ef einhver myndi reyna að réttlæta það að hann geti veitt jafna þjónustu við fyrirtæki og sveitarfélög í hundruða kílómetra fjarlægð en gæti svo ekki fært sjálfan sig yfir bæjarlækinn. Þvert á móti þá teljum við það sýna trú Markaðsstofunnar á möguleika breiðs samstarfs að vera ekki að hugsa starfsemina út frá steyptum veggjum heldur tækifærum, samstarfi og hagkvæmni. Það kæmi okkur því verulega á óvart ef stjórn Markaðsstofunnar myndi ekki þiggja boð um gjaldfrjálst húsnæði.“

Faglegum forsendum sé ekki fórnað á borði hreppapólitíkur
Undanfarna mánuði hafa sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi deilt um framtíðarstaðsetningu Héraðsskjalasafns Árnesinga, sem nú er á Selfossi, og hafa Ölfusingar boðið endurgjaldslausa lóð á besta stað í Þorlákshöfn undir safnið. Elliði segir að það sé einbeittur vilji ráðamanna í Ölfusi að vera virkir þátttakendur í samstarfi sveitarfélaganna.

Það gerum við til að mynda með því að axla aukna ábyrgð í húsnæðismálum, virkri þátttöku innan stjórna og aðkomu að stefnumótandi þáttum eins og hér um ræðir. Þetta er hreint ekki bundið við Markaðsstofuna og við erum enn að vinna að því að héraðsskjalasafnið byggi hér sitt framtíðarhúsæði. Í öllu falli verðum við að gera þá kröfu að allir sitji við sama borð og málefnalegum, faglegum og fjárhagslegum forsendum sé ekki fórnað á borði þeirrar hreppapólitíkur að starfsemi sé um aldur og ævi bundin við ákveðin sveitarfélög eða jafnvel ákveðið sveitarfélag,“ segir Elliði að lokum.

Fyrri greinAllt rafmagn milli Landeyja og Víkur komið í jörð
Næsta greinStrætó rann útaf á Heiðinni