„Bjartsýnn á það sem koma skal“

Nýir aðilar hafa keypt Þrastalund í Grímsnesi og í gær var veitingastaðurinn opnaður á nýjan leik eftir allmiklar breytingar á húsnæðinu. Þeir félagar, Kristinn Gíslason og Sverrir Eiríksson, reka nú margskonar veitingaþjónustu á þessum fallega stað.

Þrastalundur hefur átt undir högg að sækja um árabil en þeir Kristinn og Sverrir og hyggjast breyta áherslum í rekstrinum. Þar verður ísbúð með heimalöguðum ís ásamt Kjörís, Tryggvabúð, í formi lítillar sveitaverslunar með það allra nauðsynlegasta, bakarí með bakkelsi og brauði og svo kaffisala frá Te og kaffi, sem margir þekkja. Þessu til viðbótar verður svo Kerið-restaurant ásamt svo pizzastað með eldbökuðum pizzum.

„Við höfum gert all róttækar breytingar á húsinu sem við teljum að ferðafólk muni kunna að meta, auk þess sem við höfum lagt mikið upp úr því að breyta aðkomu og ásýnd staðarins,“ segja þeir félagar. „Þetta verður staður þar sem allir geta komið og fundið eitthvað við sitt hæfi,“ bæta þeir við.

Greinilegt er að miklu er til kostað við breytingar til að gera staðinn sem glæsilegastan að innan jafnt sem utan, og vestan við veitingasalinn verður lokað svæði ætlað börnum, þar sem þau geta leikið sér óhult í fallegu umhverfi.

Þeir Kristinn og Sverrir hafa fulla trú á verkefninu. Margt hefur breyst á stuttum tíma í ferðaþjónustu á Íslandi og þeir ætla að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna muni skila sér í aukinni verslun, enda ljóst að margir fara þar um. Þá verður áhersla á góða þjónustu við sumarhúsaeigendur og aðra þá sem fara um eða dvelja í grennd við þennan þekkta stað á bökkum Sogsins.

„Ég er varkár að eðlisfari, en mér virðist ástæða til að vera bjartsýnn um það sem koma skal hér í Þrastalundi,“ segir Sverrir. Þeir félagar leita nú eftir starfsfólki til starfa og eru þar ýmis störf í boði fyrir áhugasama.

Fyrri greinVilja efla afreksstarf
Næsta greinJón Daði er „kominn heim“