Bjartsýni fyrir sumarið

Veitingastaðurinn Hafið Bláa við ósa Ölfusár opnaði á ný í byrjun mars eftir vetrarlokun. Að sögn Guðna Gíslasonar, sem rekur staðinn, ríkir bjartsýni fyrir sumarið og talsvert er komið af bókunum vegna hópa.

,,Við sjáum fram á betra ár en áður, miðað við bók­anir,” sagði Guðni. Hafið Bláa er reyndar opið fyrir árshátíðir yfir veturinn og sagði Guðni að það væri aukin sókn í slíkt.

Guðni tók við rekstri veitinga­staðarins í mars í fyrra ásamt konu sinni Elínborgu Kjartansdóttur. ,,Við fluttum á Stokkseyri fyrir tveimur árum og svo sáum við reksturinn auglýstan til leigu og ákváðum að slá til,” sagði Guðni. Elínborg er einnig þekkt undir listamannsnafninu Ella Rosinkrans og má sjá muni eftir hana til sölu á veitingastaðnum en anddyri hans hefur verið breytt nokkuð til að rúma betur listmuni. Þeir sem þekkja til veitingastaðarins vita að staðsetning hans er einstök.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á matseðil og er nú boðið upp á humar- og lambakjöts­hlaðborð auk þess sem hægt er að fá humarsúpu í hádeginu.