Bjarnveig og Írena hlutu afreksstyrki

Bjarnveig Björk Birkisdóttir frá Brekku í Þykkvabæ og Írena Rut Stefánsdóttir frá Hveragerði hlutu í dag styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi.

Þrjátíu og þrír nemendur sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust tóku við styrkjum úr sjóðnum. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Við mat á styrkþegum er einnig horft til virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.

Bjarnveig Björk var semidúx Menntaskólans að Laugarvatni við brautskráningu kandídata í vor. Við útskrift hlaut hún ýmsar viðurkenningar, þar á meðal Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru í fyrsta sinn í framhaldsskólum landsins í vor. Hún var virk í félagslífi ML, m.a. í leiklist og söng með kór menntaskólans. Bjarnveig Björk hyggur á nám í íslensku í haust.

Írena Rut var dúx Menntaskólans að Laugarvatni við brautskráningu nú í vor og hlaut viðurkenningar fyrir afburðaárangur á stúdentsprófi. Hún var afar virk í félagsstarfi skólans, þar á meðal í nemendafélagi og kór. Írena Rut hyggur á nám í lífeindafræði í haust.