Bjarni ráðinn framkvæmdastjóri SASS

Bjarni Guðmunds­son hef­ur verið ráðinn fram­kvæmda­stjóri Sam­taka sunn­lenskra sveit­ar­fé­laga. Hann tek­ur við stöðunni um ára­mót en Þorvarður Hjaltason hefur látið af störfum.

Bjarni gegndi áður stöðu fram­kvæmda­stjóra þró­un­ar hjá RÚV frá ár­inu 2007 til 2014 en hann lét af þeim störf­um í vor. Þar sinnti hann m.a. stefnu­mót­un og samn­inga­gerð, stýrði fag­hópi varðandi fjár­mál fé­lags­ins og bar ábyrgð á starfs­manna­mál­um RÚV til árs­ins 2010. Jafn­framt kom hann að und­ir­bún­ingi og gerð fjár­hags­áætl­un­ar ásamt frá­gangi árs­reikn­inga. Á þessu tíma­bili sat Bjarni jafn­an fundi með stjórn og fram­kvæmda­stjórn RÚV ásamt því að sinna dag­legri stjórn­un á skrif­stofu út­varps­stjóra, seg­ir í frétta­til­kynn­ingu.

Frá 1997 til 2007 gegndi Bjarni starfi fram­kvæmda­stjóra sjón­varps og var hann staðgeng­ill út­varps­stjóra frá ár­inu 1998. Þar bar hann m.a. ábyrgð á fram­kvæmda- og rekstr­aráætl­un­um, sat fundi með Útvarps­ráði og fram­kvæmda­stjórn og sinnti dag­legri stjórn­un.

Bjarni var rekstr­ar­ráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf frá 1996 til 1997 þar sem hann kom m.a að stefnu­mót­un fyr­ir­tækja og stofn­ana, hann var markaðsstjóri Íslenskr­ar Get­spár frá 1994 til 1996 og fram­kvæmda­stjóri Gulu lín­unn­ar frá 1992 til 1994. Bjarni hef­ur jafn­framt setið í hinum ýmsu stjórn­um.

Bjarni lauk MBA gráðu frá Ed­in­borg­ar­há­skóla árið 1992, B.Sc gráðu í raf­magns­tækni­fræði frá Tækni­há­skól­an­um í Óðinsvé­um árið 1985 og raf­virkj­un frá Iðnskól­an­um í Reykja­vík árið 1980.

mbl.is greinir frá þessu