Bjarni í skýjunum með Skaupið

Bjarni Harðarson brilleraði að eigin sögn í Áramótaskaupinu í gærkvöldi.

„Ég er enn að velta því fyrir mér hvernig við Jón Bjarnason náðumst þarna á mynd því ekki dettur mér í hug að halda nokkur hafi getað hermt atvik og takta svo nákvæmlega eftir,“ sagði Bjarni í samtali við sunnlenska.is.

Handritshöfundar Skaupsins gerðu grín að ráðningu Bjarna sem upplýsingafulltrúa í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Einar Örn Einarsson, sem er best þekktur fyrir að leika Manna í sjónvarpsþáttunum um Nonna og Manna, sýndi snilldartakta í hlutverki Bjarna.

„Já, hann gerði þetta mjög vel og ég hafði mjög gaman af þessu. Mér finnst það heiður að vera tekinn fyrir þarna og ég held að það sé þannig fyrir alla sem láta eitthvað til sín taka. Ég er alveg í skýjunum með þetta,“ segir Bjarni og bætir við að Gunnar Helgason hafi ekki verið síðri sem Jón Bjarnason. „Við sem stöndum nærri Jóni erum mjög ánægð með hvernig hann kom út úr Skaupinu.“

Og Bjarni var líka ánægður með Skaupið í heild sinni. „Mér fannst það mjög gott. Það datt aðeins niður um miðbikið en seinni hlutinn kom mjög sterkur inn,“ sagði Bjarni.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Bjarna bregður fyrir í Áramótaskaupinu því fyrir nokkrum árum sást hann í atriði þar sem biskup Íslands glímdi við drauga í Draugasetrinu á Stokkseyri.

Nokkrum Sunnlendingum brá fyrir í Skaupinu í gærkvöldi, Tungnakonan Íris Blandon lék nokkur hlutverk, Erlingur Brynjólfsson kennari á Selfossi sat á Alþingi og Ólafur Ingvi Ólason fór á kostum sem afgreiðslumaður með mottu í Krónunni svo fáir séu upptaldir.

Fyrri greinGæsirnar þekkja bílinn
Næsta greinHeimildarmynd um Húsið á RÚV