Bjargráðasjóður bætir ekki tjón á vegi

Bjargráðasjóður, sem á að bæta tjón sem verður á túnum og búfé hjá bændum, bætir ekki tjón á vegum sem þarf að fara til að komast að túnunum.

Bóndi í Skaftártungu sér fram á að tapa fjórðungi af heyi sínu þar sem vegur að túnum sem hann hefur nýtt rofnaði í Skaftárhlaupi.

RÚV greinir frá því að Pétur Davíð Sigurðsson bóndi í Búlandi í Skaftártungu sér fram á að missa fjórðung af sínu heyi þar sem vegur að túnum sem hann nýtti rofnaði í Skaftárhlaupi, og hann kemst þar með ekki að túnunum. Hann bíður nú eftir svari frá sveitarfélaginu um hvort þetta tjón fáist bætt, en þegar hafa komið þrjátíu milljónir frá ríkinu til að bæta tjón sem aðrir bæta ekki.

Bjargráðasjóður, sem er í eigu bæði ríkisins og Bændasamtakanna, hefur það hlutverk meðal annars að bæta einstaklingum beint tjón af völdum náttúruhamfara, og einnig uppskerutjón vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa.

Anton Torfi Bergsson framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í samtali við fréttastofu að engin formleg ákvörðun hefði verið tekin um bætur vegna þessa tiltekna vegar. Hins vegar hafi fulltrúar sjóðsins haldið fund með fulltrúum sveitarfélagsins og komist að raun um að Bjargráðasjóður ætti ekki, samkvæmt lögum um sjóðinn, að bæta þetta tjón.

Frétt RÚV