Bjargað úr sjálfheldu í Hvítá

Frá aðgerðum við Brúarhlöð í dag. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út á fjórða tímanum í dag vegna manns sem var í sjálfheldu í Hvítá fyrir neðan Brúarhlöð.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafði maðurinn hoppað út í ána án þess að vera í flotgalla eða björgunarvesti, en áin er stórvarasöm á þessum kafla. Björgunarsveitir og bátaflokkar voru kallaðar út á hæsta forgangi vegna málsins.

Maðurinn náði landi en háir klettar eru umhverfis ána á þessum slóðum og komst maðurinn ekki upp af sjálfdáðum.

Fjórir hópar björgunarsveitarfólks lögðu af stað á vettvang og sá fyrsti sem kom að manninum náði fljótt að koma til hans línu og björgunarvesti. Um hálftíma síðar var maðurinn komin á þurrt í sjúkrabíl til aðhlynningar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu gekk aðgerðin vel fyrir sig.

Fyrri greinDýrmæt stig Hamars á erfiðum útivelli – KFR og ÍBU töpuðu
Næsta greinÁsgrímur tryggði Ægi sigurinn