Bjargað af eyri í Núpsvötnum

Björgunarsveitarmenn í Kyndli á Kirkjubæjarklaustri björguðu í kvöld þremur mönnum af eyri í Núpsvötnum með því að koma til þeirra línu og draga á þurrt í gúmmíbáti.

Einum björgunarsveitarmanni tókst að komast til mannanna á eyrinni með línu. Björgunarbátur var síðan dreginn upp á eyrina og aftur í land með mennina fjóra.

Gríðarlegir vatnavextir hafa verið í ám í Rangárþingi eystra og í Vestur- Skaftafellssýslu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli voru mennirnir í veiðiferð og festust í bíl á eyri í Núpsvötnum. Skilja varð bílinn eftir í vatninu við eyrina en reyna átti í nótt að ná honum í land með aðstoð jarðýtu enda var byrjað að grafa undan honum.

Mikið hefur vaxið í ám í umdæmi Hvolsvallarlögreglunnar og brýtur undir brúargólfið á Svaðbælisá undir Eyjafjöllum. Biður lögreglan vegfarendur um að hafa varann á flæði vatnið upp á veginn.

Þá vill lögreglan hvetja þá, sem eru á hálendinu, að gæta að ánum þegar þeir fara til byggða á morgun og þá, sem ætla sér í slíkar ferðir, að fresta þeim.