Bjargað af þaki bíls í Bresti

Vegfarendur björguðu manni af þaki bíls sem hafði lent út í miðri ánni Bresti í Eldhrauni nú síðdegis.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að maðurinn hafi sofnað undir stýri. Bíllinn stakkst út í miðja á en ökumanninum tókst að klifra upp á þak bílsins og aðvífandi vegfarendur björguðu honum þaðan.

Maðurinn fékk læknisskoðun í sjúkrabíl á staðnum og fékk að fara heim að henni lokinni.

Björgunarsveitir í Álftaveri, Skaftártungu og frá Kirkjubæjarklaustri voru kallaðar út og drógu bílinn á þurrt.