Bjarg byggir tvö fjölbýlishús á Selfossi

Fyrstu skóflustungurnar að húsunum voru teknar í desember síðastliðnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag voru teknar fyrstu skóflustungurnar að 28 nýjum leiguíbúðum í tveimur fjölbýlishúsum Bjargs íbúðafélags við Heiðarstekk 1 og 3 á Selfossi.

Um er að ræða svokölluð „kubbahús“ sem eru vistvænar og endingargóðar timburbyggingar. Svo skemmtilega vill til að þær verða smíðaðar nánast hinu megin við götuna, hjá SG húsum á Selfossi, sem er verktaki við bygginguna en arkitekt er Svava Jóns slf.

Reiknað er með að fyrra húsið verði komið í útleigu í júní á næsta ári og það síðara í október.

Nú þegar er Bjarg með tæplega 400 íbúðir í útleigu víða um land, meðal annars í Þorlákshöfn þar sem nýlega var tekið í notkun hús í svipuðum stíl, byggt úr kubbaeiningum.

Að sögn Árna Stefáns Jónssonar, stjórnarformanns Bjargs, er félaginu ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði og eru íbúðir félagsins því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn. Bjarg er húsnæðis sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Heiðarstekkur 1. Tölvumynd/Svava Jóns slf.
Fyrri greinGert ráð fyrir miklum hallarekstri hjá Árborg
Næsta greinEva María vann óvæntasta afrekið