Síðastliðinn miðvikudag tóku forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags og fulltrúar Hrunamannahrepps fyrstu skóflustunguna að raðhúsi sem félagið mun byggja við Loðmundartanga á Flúðum.
Framkvæmdir við húsið eru þar með formlega hafnar en þarna munu rísa fimm fjögurra herbergja íbúðir og er áætlað að þær verði tilbúnar til leigu í apríl á næsta ári. Áætluð verklok eru mánuði síðar. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir um íbúðirnar.
Hér er um að ræða fyrsta húsið sem Bjarg íbúðafélag reisir í Uppsveitum Árnessýslu en félagið er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Á Flúðum verða öll húsin með litlum garði og eru allar íbúðir með tveimur bílastæðum og fullfrágenginni lóð með útigeymslu, ruslaskýlum og frístandandi hjólageymslu.