Bjarg byggir 55 íbúðir á Suðurlandi

Bjarg, íbúðafélag hyggst byggja allt að 55 leiguíbúðir á Suðurlandi á næstu árum, 44 í Árborg og 11 í Þorlákshöfn.

Fulltrúar Bjargs og sveitarfélaganna undirrituðu samninga og viljayfirlýsingar þess efnis í gær. Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Samningur Árborgar og Bjargs gerir ráð fyrir uppbyggingu á allt að 44 leiguíbúðum í sveitarfélaginu, auk þess sem Árborg veitir Bjargi vilyrði fyrir tveimur lóðum í væntanlegu íbúðahverfi í Björk til uppbyggingarinnar. Veitt er vilyrði fyrir lóðum undir 28 íbúðir á þessu ári og árið 2020 verður úthlutað lóðum fyrir sextán íbúðir.

Íbúðirnar ellefu í Þorlákshöfn verða í fjölbýlishúsi við Sambyggð og er ætlað að þær verði tilbúnar til afhendingar í maí á næsta ári.

Fyrri greinLeit við Ölfusá hætt í bili
Næsta greinNanna Þorláks: Betra samfélag – fyrir alla