Bjálkahús splundraðist við Þingvallavatn

Björgunarsveitarmenn úr Hjálparsveitinni Tintron í Grímsnesi hafa sinnt fjölmörgum verkefnum í morgun, meðal annars splundraðist veglegt bjálkahús í sumarbústaðalandi við Miðfell í Þingvallasveit.

Að sögn Jóhannesar Geirs Sigurjónssonar, björgunarsveitarmanns í Tintron, sinnti sveitin fjölda útkalla í morgun víða um svæðið. Þakplötur og þakgluggar fuku af útihúsum á að minnsta kosti sex stöðum. Ekki urðu slys á fólki og björgunarsveitarmenn gerðu það sem þeir gátu til að festa niður það sem eftir stóð.

Einnig var malbikið farið að yfirgefa Biskupstungnabraut á vegkafla við Stóru-Borg.

Bjálkahúsið sem sprakk í veðurofsanum við Miðfell dreifði sér yfir stór svæði og inn á næstu lóðir en björgunarsveitarmennirnir náðu að fergja þakið og stærstu hluta hússins svo að þeir myndu ekki fjúka lengra.


Brakið dreifðist um stórt svæði. sunnlenska.is/Björn Kristinn Pálmarsson

Fyrri greinSandskaflar á veginum og klæðning farin að losna
Næsta greinLóðum úthlutað í Hagalandi