Biskup kaupir fjórhjól

Björgunarsveitin Biskup í Bláskógabyggð hefur nú keypt sérútbúin fjórhjól og selt snjósleða sem voru í eigu hennar í þeirra stað.

Sigurjón Pétur Guðmundsson, gjaldkeri Biskups, segir ástæðuna vera þá að sveitin hafi átt tvo snjósleða í fjögur ár en á þeim tíma hafi einungis verið unnt að nýta þá í eitt útkall. Vegna breyttra snjóalaga í byggð og eðlis útkalla, var ákveðið að skipta yfir í fjórhjólin.

Pétur segir að björgunarsveitarmenn telji að hjólin eigi eftir að reynast mjög vel, ekki síst við eftirgrennslan eftir bifreiðum og manneskjum í sumarbústaðahverfum þar sem erfitt getur verið að athafna sig á sérútbúnum jeppum.

Fjórhjólin eru fengin hjá Ellingsen og eru af gerðinni Can Am 800. Segir Pétur þau vera þau fyrstu þessarar gerðar sem séu sérsniðin fyrir björgunarsveitir með öflugum aukabúnaði sem henti við störf þeirra. Töluverð eftirspurn er eftir hjólum sem þessum og er nú verið að útbúa fimm hjól fyrir aðrar björgunarsveitir.