Birta semur um skógrækt í Haukadal

Jakob Tryggvason, formaður stjórnar Birtu ásamt Ágústi Jóhannssyni, skógarverði á Suðurlandi og Ingibjörgu Ólafsdóttur varaformanni stjórnar við undirritun samningsins. Ljósmynd/Birta

Birta lífeyrissjóður hefur samið til þriggja ára við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt á alls þremur hekturum lands í Haukadal.

Þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar sem lífeyrissjóður gerir við Skógræktina og er í raun stefnuyfirlýsing um verkefnið Græn spor Birtu.

Samningurinn var undirritaður í Haukadal að viðstaddri stjórn og varastjórn Birtu, nokkrum stjórnendum sjóðsins og fulltrúum Skógræktarinnar.

Athöfnin átti sér stað undir þaki skýlis úr íslenskum viði af vettvangi og boðið upp á kleinur og ketilkaffi. Atburðurinn sjálfur og veitingarnar yljuðu bæði sál og líkama í norðanfræsingnum sem lék um Birtufólk fyrr um daginn, þegar það gróðursetti 500 plöntur af stafafuru í nýja Birtulandinu undir styrkri stjórn Trausta Jóhannssonar skógarvarðar á Suðurlandi.

Gert er ráð fyrir 7.500 plöntum af stafafuru, sitkagreni og alaskaösp á hekturunum þremur þar sem vaxa mun skógur í nafni Birtu lífeyrissjóðs í fyllingu tímans. Starfsmenn Skógræktarinnar sjá um framkvæmd mála og Birtufólk fylgist vel með þessum græna afleggjara sjóðsins. Nú þegar er komin á dagskrá fjölskylduferð starfsmanna Birtu í Haukadal snemmsumars 2019 til kynnast verkefninu og landinu og kanna hvernig plöntur haustsins koma undan vetri.

Fyrri greinKottos – með kraft og tilfinningu
Næsta greinDean Martin áfram með Selfossliðið