Birkir nýr stallari í ML

Kosningar til nýrrar stjórnar nemendafélagsins Mímis í Menntaskólanum að Laugarvatni fóru fram í vikunni og var Birkir Grétarsson frá Þórisholti í Reynishverfi kosinn stallari.

Varastallari var kosin Þórhildur Hrafnsdóttir frá Ólafsvík og gjaldkeri Þjóðbjörg Eiríksdóttir frá Gýgjarhólskoti.

Aðrir þeir sem skipa stjórnina eru Margrét Björg Hallgrímsdóttir frá Miðhúsum, ritnefndarformaður, Kári Benónýsson frá Miðtúni í Rangárvallasýslu og Karl Gústaf Skaftason frá Brautarholti, skemmtinefndarformenn, Einar Ágúst Hjörleifsson frá Fossi og Sveinn Sigurðarson frá Steinsholti, íþróttaformenn, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir frá Borðeyri og Ástrún Svala Óskarsdóttir frá Hvolsvelli, skólaráðsfulltrúar, Vigdís Eva Steinsþórsdóttir frá Ási í Mýrdalshreppi, vef- og markaðsfulltrúi, árshátíðarformaðurinn Lovísa Guðlaugsdóttir frá Grímsstöðum í Rangárþingi eystra og tómstundaformaðurinn Kristbergur Ómar Steinarsson frá Hvolsvelli.

Tvö framboð voru til varastallara, gjaldkera, skólaráðs og árshátíðarformanns en að öðru leyti var um einn valkost að ræða. Kosningabaráttan var drengileg en frambjóðendur höfðu sig nokkuð í frammi og fólst baráttan aðallega í því að bjóða kjósendum gott í gogginn.

Fyrri greinFull stúka og formaðurinn á grillinu!
Næsta greinFjóla Signý sigraði í fjórum greinum