Birkir Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Höfða

Birkir Hrafn Jóakimsson. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Selfyssingurinn Birkir Hrafn Jóakimsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Hann hefur störf í desember næstkomandi.

Birkir Hrafn kemur til Höfða frá Vegagerðinni. Þar hefur hann gegnt stöðu forstöðumanns stoðdeildar mannvirkjasviðs og borið ábyrgð á rannsóknum, útboðum og leiðbeiningum til starfsmanna og verktaka. Birkir Hrafn starfaði áður hjá verkfræðistofunni Verkís. Hann er með M.Sc. próf í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Við erum mjög ánægð að fá Birki inn í okkar öfluga stjórnendateymi,“ segir Helgi Geirharðsson, stjórnarformaður Höfða. „Hann býr yfir fjölþættri reynslu úr fyrri störfum sem nýtist vel við þau metnaðarfullu verkefni sem fram undan eru.“ Malbikunarstöðin Höfði er í eigu Reykjarvíkurborgar og Aflvaka hf.

„Ég hlakka til að ganga til liðs við Höfða og taka þátt í að leiða fyrirtækið áfram,“ segir Birkir. „Sérstaklega verður ánægjulegt að vinna með því frábæra fólki sem þar starfar og býr yfir mikilvægri reynslu og fagmennsku.“

Fyrri greinSkáldastund í Húsinu
Næsta greinKatrín ráðin framkvæmdastjóri markaðsmála