Birkigrund fallegasta gatan í Árborg

Íbúarnir í Birkigrund voru hæstánægðir með viðurkenninguna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Birkigrund á Selfossi er fallegasta gatan í Árborg 2025. Skilti sem staðfestir það var afhjúpað í götunni síðdegis í dag, á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi.

Hefð er fyrir því að elsti og yngsti íbúi götunnar séu heiðraðir áður en sá elsti afhjúpar skiltið. Elsti íbúinn í Birkigrundinni er Ólafur Sigfússon, fæddur 20. maí 1938 og sá yngsti Elfar Örn Óskarsson, fæddur 7. október 2024. Foreldar hans eru Tinna Dögg Tryggvadóttir og Óskar Örn Hróbjartsson. Elfar Örn og fjölskylda voru fjarverandi í dag.

Umhverfisnefnd Árborgar afhendir þessi verðlaun árlega og barst nefndinni fjöldi tilnefninga í ár. Birkigrund var valin því hún er heilt yfir snyrtileg og falleg gata í grónu umhverfi.

Nefndin veitir fjögur verðlaun til viðbótar á sléttusöngnum í Sigtúnsgarði annað kvöld. Þá kemur í ljós hvert er snyrtilegasta fyrirtækið, fallegasti garðurinn, fallegasta fjölbýlið og hver fær umhverfisviðurkenningu Árborgar 2025.

Ekki vildi betur til þegar Ólafur afhjúpaði skiltið en að spottinn slitnaði… sunnlenska.is/Guðmundur Karl
…og það þurfti þrautþjálfaðan körfubolta- og sjúkraflutningamann úr næstu götu til að bjarga málunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ólafur Sigfússon, elsti íbúi Birkigrundar, ásamt Braga Bjarnasyni bæjarstjóra og Daníel Leó Ólasyni, formanni umhverfisnefndarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEldur í bíl á Laugarvatnsvegi
Næsta greinTólfti sigur Selfoss í röð