Birgir í 1. sæti hjá Miðflokknum

Birgir Þórarinsson, alþingismaður, í Vogum á Vatnsleysuströnd er í oddvitasæti lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi sem lagður verður fram til samþykktar á félagafundi næstkomandi miðvikudagskvöld.

Birgir og Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður, sóttust báðir eftir að leiða listann en Karl Gauti er ekki á meðal efstu frambjóðenda. Þar er ekki heldur Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi í Árborg, sem sóttist eftir 2. sætinu.

Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur og kúabóndi, á Stíflu í Vestur-Landeyjum sóttist einnig eftir 2. sætinu en hún skipar 3. sæti á listanum. Annað sætið skipar Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur í Hveragerði.

Félagafundurinn verður haldinn í húsnæði Miðflokksins í Hamraborg í Kópavogi kl. 20 og verður einnig streymt á Zoom.

Fimm efstu sætin á listanum eru svohljóðandi:
1. Birgir Þórarinsson, Vogar Vatnsleysuströnd
2. Erna Bjarnadóttir, Hveragerði
3. Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra
4. Guðni Hjörleifsson, Vestmannaeyjum
5. Ásdís Bjarnadóttir, Flúðir Hrunamannahreppi

Fyrri greinMaðurinn ekki alvarlega slasaður
Næsta greinÁ 184 km/klst hraða undir Ingólfsfjalli