Birgðir að aukast og verð að lækka

Vinnsla á síld er nú í fullum gangi hjá Frostfiski í Þorlákshöfn og hefur fyrirtækið tekið við um 100 tonnum af síld síðan veiðin hófst fyrir tveimur vikum.

Síldin er keypt frá Grundarfirði og Stykkishólmi og ekið í vinnslu í Þorlákshöfn.

Að sögn Steingríms Leifssonar, framkvæmdastjóra Frostfisks, ríkir ákveðin óvissa um hve kvótinn verður mikill en menn væru að binda vonir við að

nafni hans, Steingrímur J. Sigfússon atvinnumálaráðherra, leyfi frekari veiði. „Hann er með um 2.000 tonn í vasanum sem hann getur aukið við kvótann og ég sé ekki ástæðu til annars en að það verði gert,” sagði Steingrímur. Frostfiskur kaupir síldina fyrst og fremst af smábátum.

Hjá Frostfiski starfa nú 110 manns í Þorlákshöfn og 35 manns í Ólafsvík. Að sögn Steingríms er verkefnastaðan ágæt núna en auk síldarinnar er unninn bolfiskur; ufsi, ýsa og þorskur. Steingrímur sagði að nú væru blikur á mörkuðum vegna mikils framboðs af þorski og birgðir væru að aukast hjá þeim auk þess sem verð á þorski væri að lækka.

„Það veiðist vel núna en aðalvandinn er að selja fiskinn. Sölutregðan á mörkuðum hlýtur að koma fyrr eða síðar niður á vinnslunni,” sagði Steingrímur. Hann sagði ástæðu þess væri mikið framboð af þorski úr Barentshafi.

Þorskur hefur þannig lækkað töluvert í verði eða um 20 til 30% frá því er mest var.