Bíósýningar fjóra daga vikunnar

Bíósýningum í Sambíóunum á Selfossi mun fækka um næstu mánaðarmót en bíóið verður aðeins opið fjóra daga vikunnar. Starfsmönnum fækkar um helming.

Eftir 1. febrúar verða sýningar á föstudögum, laugardögum, sunnudögum og þriðjudögum.

Einnig verður opnunartími bíósins um páska og jól endurskoðaður auk þess sem breytingar verða væntanlega gerðar á sumaropnunartíma bíósins.

Fyrr í vetur var öllum starfsmönnum bíósins, 16 talsins, sagt upp vegna endurskipulagningar á rekstrinum. Alfreð Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, sagði í samtali við sunnlenska.is að eftir breytingarnar muni starfsmenn bíósins verða átta. Þeir starfsmenn sem starfa áfram muni halda svipuðu starfshlutfalli en allir eru þeir í hlutastörfum.

Nýja fyrirkomulagið var kynnt starfsmönnum á fundi í kvöld.