Bíóinu skellt í lás eftir kvöldið

Síðustu sýningar Sambíóanna í Selfossbíó eru í kvöld en eftir það verður bíóinu lokað.

Í sal 1 verður heimildarmyndin Hreint hjarta sýnd kl. 20 og 22 en myndin, sem fjallar um sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson, prest á Selfossi hefur fengið góða aðsókn á undanförnum dögum.

Í sal 2 er rómantíska gamanmyndin Hope Springs sýnd kl. 20 og 22:10. Að seinni sýningunni lokinni er kvikmyndasýningum á Selfossi á vegum Sambíóanna lokið.

Sambíóin leigja Selfossbíó með tækjum af eigendum Hótel Selfoss en tækjabúnaður bíósins er orðinn úreltur og að mati rekstraraðilanna svarar ekki kostnaði að endurnýja hann.