Bíóhúsið Selfossi opnar í kvöld

Sunnlendingar geta nú sótt kvikmyndasýningar í heimabyggð á nýjan leik en Bíóhúsið Selfossi verður opnað í kvöld kl. 20:00.

Þar með er rekstur aftur hafinn í bíósölum Hótel Selfoss eftir hlé síðustu vikur. Í millitíðinni hafa verið unnar ýmsar endurbætur á bíóinu sem er hið glæsilegasta.

Að sögn Marinós Lilliendahl og Kristjáns Bergsteinssonar, sem sjá um rekstur Bíóhússins í samvinnu við Hótel Selfoss, verður áfram unnið að endurbótum á bíóinu næstu vikur og mánuði en skipt verður um stóla í sölunum, ný sýningarvél af fullkomnustu gerð tekin í notkun í sal 1 og núverandi vél færð yfir í sal 2 sem kemst þá aftur í fulla notkun.

„Við opnum í kvöld með Avengers: Infinity War en meðal annarra mynda sem sýndar verða um helgina er Víti í Vestmannaeyjum sem margir hafa beðið eftir að sjá á Selfossi. Við erum mjög spenntir fyrir því að geta opnað bíóið á ný hér á Selfossi og hlökkum til að sjá sem flesta hjá okkur um helgina,“ sagði Marinó í samtali við sunnlenska.is.

Sýningar verða öll kvöld vikunnar og vel hefur gengið að ráða starfsfólk í Bíóhúsið en þar munu fimmtán til átján starfsmenn vinna í hlutastarfi.

Fyrri greinTómas Ellert: Við ætlum að vekja Sveitarfélagið Árborg
Næsta greinHæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms í sorpútboðsmálinu